Síðustu dagar

Nú fer svona að síga á seinni endann á þessari jólahátíð og ég tók ákvörðun strax í upphafi að vera ekkert að blekkja mig og vera ekkert að reyna að vinna neitt og hef samkvæmt því verið í fullri vinnu við að njóta lífsins og hef eiginlega ekki haft tíma í neitt annað. Hvernig fer fólk að því að njóta lífsins og vinna?

Annars veiktist ég skömmu fyrir jólin og var ekki nema með hálfu ráði dagana fyrir jól. Var með svo mikinn hita og svo út úr heiminum að þegar ég fór upp á læknavakt á Þorláksmessu endaði ég á því að vera þar í nokkra klukkutíma því ég hafði ekki rænu á því að athuga hvar ég var í röðinni og ég endaði á því að vera síðasti sjúklingurinn og viti menn ég var með streptokokka!
Ég hef samt ekki látið það stoppa mig og hef haldið fullum dampi, var meira að segja hlaupandi um kringluna daginn fyrir þorláksmessu með 39 stiga hita, var svo bryðjandi verkjalyf eins og nammi þangað til að ég fékk lyfin mín en ég á að taka svo mikið af þessum streptokokkalyfjum að ég hef varla við! Það hefur samt skilað sér og ég er alveg orðinn gjörsalega sprækur og tilbúinn í átök kvöldsins.
Ég spái góðu áramótaskaupi.

Jæja farinn að kúka og kaupa flugelda.


Bókvit = Verkvit? neee

Ef einhver segði að fjölskyldan mín hefði ekki verkvit þá hefur sá hinn sami bara.... uu mjög rétt fyrir sér reyndar!

Nei hér á þessu heimili er verkvitið ekki í askana látið þótt bókvitið sé eitthvað enda allir þeir sem búa á Bankavegi 8 ennþá í háskólanámi (mamma (er hjúkka, að læra djákna), pabbi(Er prestur, að læra sálgæslufræði), magnús (að læra verkfræði), Friðfinnur(Að klára viðskiptafræðina), og ég(í Viðskiptafræði)) 

En já þrátt fyrir allar þessar háskólagráður og komandi háskólagráður þá er alveg ótrúlegt hvað minnstu verk geta vafist fyrir okkur. Það var ekki fyrir svo mörgum árum síðan að við ákváðum að kaupa okkur jólatré sem var þannig að úr garði gert að það missti mjög mikið barr. Ætli það hafi ekki verið rauðgreni.

 Afgreiðslumaðurinn sagði okkur að þetta væri mjög einfalt, við þyrftum bara að sjóða fótinn á því og þá ætti það að halda sér nokkuð vel. Okey hljómar ekki mjög flókið en auðvitað tekst okkur að flækja allt.

Í stað þess að einfaldlega sjóða vatn í potti, setja hann á gólfið og skella trénu ofan í eins og allt venjulegt fólk myndi gera... ákváðum við að setja pottinn sem var gríðarlega stór og hár á pönnuna, setja á hæsta hita og svo var jólatréð sem var stórt og vígalegt tekið inn, plastið tekið utan af því og svo einfaldlega lyft upp og stungið ofan í pottinn á meðan hann var á hellunni.

Enginn okkar fattaði að þetta myndi aldrei virka þar sem það er vifta fyrir ofan helluna og tréð var svo stórt og hátt að það myndi auðveldlega rekast í loftið, svo ekki sé talað um alla þá orku sem fór í að lyfta því nógu hátt og síðast en ekki síst við að halda því stöðugu ofan í pottinum þar sem það þurfti að standa á ská út úr honum út viftunni sem var rétt fyrir ofan helluna.

Það ótrúlega var að á meðan við héldum trénu eins og hálfvitar ofan í pottinum og biðum eftir að suðan kæmi upp, datt engum okkar í hug að þetta væri kjánalegt. Okkur fannst þetta vera eina rétta leiðin og það var ekki fyrr en fyrir nokkrum dögum að ég fór að hugsa út í þetta og áttaði mig á því hverslags rugl þetta var.

 

Fyrir vikið var eldhúsið allt út í barri og einhvernveginn virkaði þetta ekki betur en svo að hálft barrið var farið af fyrir jól ;)

 

Já það er greinilegt að bókvit er ekki endilega það sama og verkvit 

 


Þá er þetta búið.. næstum því

Kláraði Aðferðafræðiprófið mitt í gær og það gekk bara svona ansi vel. Fór svo aðeins og spjallaði við kennarana mína og skoðaði prófin.  Náði meira að segja Þjóðhagfræðinni sem ég var viss um að ég væri fallinn í þar sem tölvan mín varð batterýslaus í miðju prófi vegna þess að prófborðið mitt var ekki tengt í rafmagn og allt þurkaðist út af prófinu sem þýddi að ég þurfti að vinna helminginn af prófinu aftur og náði þar af leiðandi ekki að klára einhverja eina og hálfa til tvær blaðsíður af prófinu en já ég náði prófinu og útskrifaðist úr áfanganum með 7 sem er bara allt í lagi.

Svo var gærdagurinn bara annars tekinn í leti. Fór að sofa rétt yfir tólf og svaf því í rúma 12 tíma þar sem ég var að vakna. 

Þarf svo að mæta á einhverja misserisvörn á eftir og á morgun og fer svo heim á morgun í endanlegt jólafrí þótt þetta hafi nú verið hálfgert frí síðastliðnar tvær vikur. 


Ræðan mín

Ég fékk það verkefni að skrifa ræðu um hvað sem ég vildi og halda í áfanganum mínum. Ég komst svo að því að hún gildir ekki til einkunnar svo ég ákvað bara að nýta tækifærið og skrifa málefni sem er mér mjög hjartnæmt en margir myndu segja að væri hálf þunnt í heila ræðu og jafnvel telja að ég væri klikkaður.

Ég steig upp á svið í aðalsal háskólans og hélt eftirfarandi ræðu. Viðbrögð kennara voru nú bara nokkuð jákvætt og hann hafði ekkert út á þetta að setja.

Funarstjóri og aðrir gestir

Þú og ég… ég og þú
Eins og vel strokkuð mjólkurkú
Svo leikandi létt og fagurt
Svo unaðslega mjúgt og magurt

Nú loksins loksins loksins þú aflæðist
Þá Himneskur ilmur að mér læðist.
Hjarta mitt tekur viðbragðskipp
Finn ég í lykt af nóa Pipp?


Fá orð lýsa því jafn vel hverslags kraftaverkalyfi, sameiningartákni og jafnframt hamingjugjafi….. hið yndislega Pipp er.

Dömur mínar og herrar, það eru tvær gerðir af fólki í þessu samfélagi. Fólk sem borðar ekki pipp og fólk sem borðar Pipp. Það er svo einfalt.

Fyrri hópurinn stendur fyrir það sem hefur misfarist í þessu lífi. Hópur fólks sem heldur að lífið sé ekkert nema Nizza og Nóa Kropp. Þetta er fólk sem veit einfaldlega ekki hverju það er að missa af.

Seinni hópurinn er hópurinn sem lifiir núinu. Hópur sem kann að meta lífið og stendur fyrir þær framfarir sem átt hafa sér stað á Íslandi síðastliðin ár, þann árangur sem íslendingar hafa skapað sér með dugnaði, vinnusemi óþrjótandi metnaði… og pippi

Ég hitti eitt seinn gamla konu sem kom að mér grátandi. Það kom í ljós að Pippið var búið í Melabúðinni og hafði ekki verið til svo vikum skipti… Þessi kona er nú dáin. Við skulum hafa það í huga……..
Dömur mínar og herrar Slíkur er máttur Pippsins.

Nýlega kom í ljós að hvergi er betra að búa í heiminum en á Íslandi. Jafnframt hefur komið í ljós að sala á pippi hefur aldrei verið meiri. Það þarf engan stærðfræðing til að sjá að Pipp er því greinilega ástæða þeirra lífskjara sem við búum við í dag. Tengslin eru augljós.
Ég efa það ekki að öll ykkar hafið ykkar pipp sögu að segja heiminum og áhrif pippsins hafa eflaust snert ykkur persónulega og fjölskyldur ykkar, jafnvel vini og vandamenn, hver veit.

En hvað er það í Pippinu sem er svona gott? Jú. Pipp er einungis unnið úr úrvalshráefnum frá Nóa Siríus og eru gæði þess á heimsmælikvarða.

Allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á síðastliðnum árum benda til þess að Pipp sé ekki aðeins gott nammi og kraftaverkalyf heldur Sameiningartákn mismunandi stétta innan samfélagsins og hafa margir velt því fyrir sér afhverju lög hafa ekki verið sett í íslensku stjórnarskrána varðandi lágmarks daglega neyslu á pippi?

Ég ætla ekki að leitast við að svara þeirri spurningu hér í dag en hún minnir okkur ef til vill á það hversu heimurinn sem við búum í getur verið ruglaður. Að við búum í landi þar sem til er fólk sem ekki borðar Pipp!, að við búum í landi þar sem engin lög eru til lágmarksneyslu á pippi. Ótrúlegt!

Dömur mínar og herrar, Það er greinilegt að dagleg neysla á pippi hefur verið grundvöllur fyrir öllu því frábæra starfi sem gert hefur verið hér á Bifröst og nú er það okkar að gera grípa Pippið og gera það að vendipunkti í okkar lífi til að halda áfram að ná lengra.

Spurningin sem við þurfum því alltaf að spyrja okkur er þessi:
Viljum við búa í samfélagi þar sem metnaðarleysi og leti einkennir líf okkar eða viljum við búa í háskólasamfélagi sem byggist á jákvæðu hugarfari, metnaði og árangri þar sem pipp er hávegum haft.

Dömur mínar og herrar. Valið er ykkar.

Takk fyrir


Til Guðmundar

Sendi þetta ljóð með verkefninu mínu til aðstoðarkennarans í Þjóðhagfræði sem fer yfir verkefnin.

Ég hef ekki fengið nein viðbrögð...

Til Guðmundar

Gjörðu svo vel og njóttu vel.
Þú drottins dýrðar drengur
Farðu nú yfir og gefðu vel
þú ljúfi máttar fengur

Skilaðu skilaðu, já skilaðu skjótt
Ég er að fara á taugum
Já skilaðu skilaðu skilaðu fljótt
ég horfi löngunaraugum

Mér nú er orðið um og ó
um og ó og ó ó ó
Ég sef varla varla rótt
fæ ég kannski brókarsótt?

Ég spenntur býð
um nokkra hríð
en ekkert vil ég stríð
aldrei um ómunatíð

Gefðu mér einkunn
og gefðana hátt
enga vil ég seinkunn
nema góðan afslátt
ég fái á aðaleinkunn

Kveðja, Kolbeinn Karl


Klósettblað

Fór á klóstið áðan og einhver hafði skilið eftir fréttablaðið hliðin á klóstinu. Svona kann ég að meta. Bjargaði mér alveg!

Kominn aftur

Kominn aftur á Bifröst og byrjaður í tíma. Ég hélt í alvörunni í nótt
að gámurinn sem ég bý í myndi fjúka burtu. Maður veit að maður býr út í
rassgati þegar samlokurnar í búðinni eru veðurtepptar. 

Magabólgur og krúnurökun

Voðalega notlegt að koma heim um helgina og geta verið í slökun.

Ætlaði í klippingu í dag en það var allstaðar lokað sem þýddi að það að ég þyrfti að fara inn í þriðju vikuna óklipptur sem var bara óásættanlegt fyrir mig svo ég tók bara upp rakvélina og hakkaðist á sjálfum mér en ég hef oft klippt mig sjálfur og það hefur aldrei komið vel út. Í þetta skiptið var þetta svo mikill hrillingur að ég var orðlaus. Endaði bara á því að taka minnstu klippuna og tók hárið allt af! Það tók smá tíma að venjast því að geta séð höfuðkúpuna en ég fíla þetta bara núna. Get unnið í hársverðinum og svo er þetta mjög frískandi en það var ekki laust við að maður hugsaði til nýnasistaflokksins eða Engla alheimsins þegar ég var búinn :)

Annars er ég hálf veikur þessa dagana. Vaknaði upp á föstudagsmorgun í ógeðslegum verkjum og þeir voru út daginn og eru enn en núna bara þegar ég borða. Ég er víst með magabólgur sem koma víst ef maður er með mikið stress en ég kannast ekkert við slíkt svo ég býð bara eftir því að þetta líði yfir og geri allt sem ég má ekki gera og borða allt sem ég má ekki borða.

Svo keypti ég mér flauelisbuxur í dag sem var eitthvað sem ég hef bara ekki gert áður og þær eru bara svona rosalega þægilegar og svona rosalega flottar og kostuðu bara alls ekki mikið og ég er bara svona rosalega sáttur og ég ég er bara búinn að segja of mörg og.

Fer svo upp á Bifröst á morgun og svo er það auðvitað Næturvaktin ;)


Fréttir

Ég hef ekki skrifað mikið vegna þess að það hefur þannig séð ekki mikið áhugavert verið að gerast. Ég nenni ekki að koma með hundleiðinlegar bloggfærslur um þá áfanga sem ég er í eða tala um hvað einhver fyrirlestur var sniðugur.

Ég get samt sagt það að ég er í Markaðsfræði, Upplýsingatækni, Þjóðhagfræði, arðsemisgreiningu og svo tek ég í aðferðafræði í október.

 Ég byggði mér náttborð í gær úr Ikea og var bara of stolltur af sjálfum mér og svo setti ég líka saman skrifborðsstól sem heitir b.t.w. Magnús http://www.rumfatalagerinn.is/rl/vefverslun/?ew_877_cat_id=13201&ew_877_p_id=22626663  og verður hann heiðursstóll Magnúsar þegar hann kemur í heimsókn.

Ég var svo latur í gær að ég byrjaði á því að fara í fyrirlestur til klukkan 10:15 og svaf svo til klukkan 1, fékk mér kjúklingaborgara, franskar og kók á kaffihúsinu, fór í verkefnatíma klukkan 2 í 40 mín og var svo gerandi ekki neitt út daginn. Ákvað reyndar að lesa aðeins í Markaðsfræðinni áður en ég fór að sofa en tók svo eftir því í morgun að ég las í vitlausri bók en það kemur ekki að sök.

 Svo er auðvitað ekki skóli á morgun (aldrei skóli á miðvikudögum hér)

 Jæja ég kem heim næstu helgi og hef áætlað að taka því rólega, líta kannski í bíó eða leigja mér spólu.


Bifröst - Fyrsti dagur

Jæja fyrsta nóttin á Bifröst var í nótt. Ég fékk ekkert of mikinn svefn og er því hálf dasaður eftir nóttina en það vildi svo skemmtilega til að tölvan mín var með einhver leiðindi og ég varð að setja eitthvað dót aftur upp á nýtt í henni og hún hætti ekki að urga fyrr en 3 í nótt. Annars er herbergið að fá á sig mynd og íbúðin sjálf. Við Þorsteinn bjuggum okkur til sjónvarpsborð út pappakössum sem virkar svona ansi vel og svo fórum við áðan niður í Borgarnes og versluðum inn í Bónus og keyptum eitthvað smá drasl sem vantaði.
Við elduðum svo í sameiningu einhvern kjúklingarétt sem er nú bara eitt það besta sem ég hef smakkað og við lágum báðir kylliflatir eftir hann. Einhvernveginn finnst mér flest það sem ég hef eldað um ævina alveg ómótstæðilegt svo það er kannski ekki að marka.
Í dag var svo eiginlega svona kynningardagur. Rektor skólans hélt ræðu og ég verð að viðurkenna að eftir hana var ég eiginlega bara ekki nógu sáttur með að vera á Bifröst því hann var voðalega þurr og mér fannst þetta vera meiri skammar og reiðiræða en eitthvað annað en ég var nú nývaknaður og mér skilst að hann sé ágætis kall. Svo fór ég í hinn svokallaða hátíðarsal sem er svona stóri salurinn í gömlu byggingunni og þar sat ég yfir smá fyrirlestri um námið sjálft frá deildarforsetanum mínum sem virðist bara vera toppmaður og svo voru þar líka kennararnir við deildina. Eftir það fórum við svo í hádegishlé og eftir hádegi fór ég aftur inn í hátíðarsal og þá tóku ýmsir til máls varðandi skólann sjálfan og starfið og að því loknu fóru fulltrúar nemendafélagsins með okkur smá hring um svæðið.

Við fórum svo og gengum frá húsaleigusamningunum okkar ég og Þorsteinn svo það myndi ekki dragast á langinn og svo er nóg af verkefnum framundan þessa viku. Leiðtogavikan byrjar á morgun en þá verður Capacent með ýmis námskeið fyrir okkur og svo þarf maður að koma sér betur fyrir, setja saman eina hillu, sækja um húsaleigubætur, sækja netsnúru, fá fólk til að laga hluti í íbúðinni, borga skólagjöldin, borga eitthvað þinglýsingargjald o.s.fv.

Eins og ég segi þá er nóg að gera og maður hefur eiginlega ekki tíma til að hafa heimþrá :) Jæja tölvan er alltaf með einhver læti svo ég þori ekki að skrifa lengur ef hún skildi detta út því ég ætla einmitt að fara í að laga hana núna :)

Þangað til næst... Kolbeinn

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband