Stóri Háskóladagurinn

Verð í Ráðhúsi Reykjavíkur á laugardagsmorgun að kynna Háskólann á Bifröst frá 11-13 eða eitthvað svoleiðis þar sem þá er víst stóri Háskóladagurinn.
Svo eru ritgerðaskrif, prófundirbúningur og verkefnavinna um helgina.


Læstur úti í nótt

Var að vinna áðan með Hrafnkeli í Rekstrarhagfræðinni en fór svo heim. Þegar ég kom áttaði ég mig á því að ég hafði skilið lykilinn eftir í úlpunni minni sem var inni í íbúðinni og Þorsteinn farinn til Selfoss og hafði læst á eftir sér :S
Ég fór niður í rækt þar sem húsvörðurinn var að klára að loka og segi honum harmsögu mína og spyr hann hvort hann geti opnað fyrir mér þar sem hann var nú ekki sofandi, ekki neitt sérstaklega upptekinn, með lyklana hengda á sig og við vorum örstutt frá íbúðinni. jújú það var ekkert mál að opna en það kostar 5000 kall.
Ég hefði skilið gjaldtöku ef hann væri sofandi, ekki á vakt, á bakvakt eða eitthvað mjög upptekinn en hann var ekkert af þessu og hafði í rauninni ekkert að gera. Spjallaði við okkur heillengi um hvað þetta væri heimskulegt en neitaði samt að opna.
Vildi svo heppilega til að Hrafnkell ætlaði að sofa hjá kærustunni svo ég krassa bara hjá honum og kaupi mér svo nýjan lykil í fyrramálið á 1000 kall.

Fékk 9,5 úr síðasta stærðfræðiprófi og rugl ánægður með það. Tók svo annað í morgun og gekk bara nokkuð vel. Það tekur samt helvíti mikið á að fara í eitt próf í viku.


Fangi á eigin heimili

Í gærkvöldi kom Þorsteinn heim á Miðnætti. Hann þurfti að moka frá hurðinni eftir göngutúrinn og fór svo sína leið. Kl 3 um nóttina kom ég svo heim úr stærðfræðilestri og þá voru engin ummerki um mokstur heldur hafði snjóað aftur hressilega fyrir hurðina og það mikið að ég þurfti að spyrja fótunum í húsið til að ná að opna hurðina. Veðrið var þá orðið fáránlegt og stormurinn gerði það að verkum að húsið skalf og nötraði í nót.
Svo vaknaði ég í morgun rétt fyrir átta og ætlaði í stærðfræðipróf. Ég þurfti að mæta eftir nokkrar mínútur og Þorsteinn líka. Þorsteinn tók í hurðarhúninn og ætlaði að ganga út... það virkaði ekki. Það var eins og hurðin væri læst en það var hún ekki. Þorsteinn hélt áfram að reyna að opna hurðina og á endanum var það komið svo langt að maður nánast hljóp á hurðina en hún haggaðist ekki. Þetta var eins og að reyna að opna læsta hurð.
Á endanum varð mér litið inn í eldhús og sá ég þar stofugluggann en þar var snjórinn jafn hár ef ekki hærri en gluggakistan.
Ég opnaði gluggann og óð út. Þegar út var komið óð ég í mittisháum snjó hringinn í kringum gámana þangað til að ég loksins komst að hurðinni okkar sem var þá svo þakin snjó að það var líkt og jarðýta hefði ýtt snjó upp að henni, sirka 1,2m hár skafl sem náði alla leið út að göngustíg.
Ég greip skóflu og byrjaði að moka og moka á fullu þangað til að ég hafði mokað nóg til að Þorsteinn gæti opnað rifu á dyrinni og smeigst sér út.
Við hlutum síðan í prófið. Másandi gekk ég inn í stofuna með blóðbragð í munninum og tóman maga og þá var kennarinn veðurteptur og prófinu hafði verið frestað um hálftíma.
Nágrannar okkar þurftu líka að skríða út um glugga til að komast í prófið.

Alltaf jafn gaman að vera með hurð sem opnast út en ekki inn!


Pabbi í fréttum

Hann pabbi er aldeilis í fjölmiðlum þessa dagana út af því að Bobby Fisher var víst jarðaður í kirkjugarðinum í Laugardælum og pabbi var víst ekki látinn vita en það er eins og það sé stærri frétt en að búið sé að finna stað fyrir Bobby Fisher.
Ég held að pabbi sé bara sá sauðslakasti og bara nokk sama um þetta allt saman.
Ábyggilega bara montinn að sjálfur Bobby Fisher sé jarðaður í kirkjugarðinum hans, ég ætla allavegana að skoða skoða gröfina einhverntíman þegar ég renni uppeftir.

Þarna þekki ég sko kellinn, bara vera sauðslakur yfir einhverjum svona smáatriðinu. Afhverju að æsa sig yfir hlutum sem skipta ekki máli og maður breytir nú varla úr þessu. Held að hann sé ekki að fara að grafa hann aftur upp ;) kjellinn sultuslakur hægri vinstri og bara sáttur á kentinum.


Þá hefst það...


Einn og hálfur tími í leik.




Við verðum að taka þetta!

Magahnútur...

Ísland - Svíþjóð í kvöld og ég er kominn með hnút í magann út af leiknum. held að það séu ekki margir stuðningsmenn sem eru hreinlega að deyja úr strassi kl 12 um dag yfir leik Íslenska landsliðsins í kvöld. Í mínum augum er þetta ég og liðið sem erum að keppa og ég bölva mér stundum fyrir að líta á klóstið í miðjum leik ef liðið hefur tapað forystu á meðan.

Annars er landsliðsbúningurinn tilbúinn og svo verður farið á kaffihúsið og horft. Mér skilst að það sé hamborgara og pítuhlaðboð þar sem ég skil ekki. hversu marga hamborgara á fólk að geta borðað?


Em að byrja

Er það skrítið að ég dýrki Íslenska landsliðið svo mikið að eitt versta móment sem ég hef upplifað sé þegar við töpuðum gegn dönum á Hm 2007? Og að gjöf nr. 1 á jólagjafalistanum mínum og eiginlega það eina sem mig langaði í var Íslenski landsliðsbúningurinn í handbolta.

 En allavegana þá er EM að byrja núna á morgun og ég er ágætlega bjartsýnn en þó kannski ekki endilega að spá okkur verðlaunasæti. Mikil meiðsli og svona.

Annars er ég byrjaður á fullu í skólanum og verkefnaálagið er að vanda mjög mjög mikið.

 Annars var ég að kaupa mér nýja tölvu http://www.hdatech.com/hardware/MacBookPro.jpg sæki hana væntanlega á föstudaginn.

 Og svo fékk ég Elko til að gefa mér þennan síma http://www.letsgodigital.org/images/artikelen/695/samsung-sgh-u600-review.jpg þar sem minn í staðinn fyrir minn nokia 5300 sem ég hef áður þurft að skipta út vegna þess að hann heldur áfram að bila. Fæ hann væntanlega á næstu dögum ef guð lofar.

Semsagt nýr sími, ný tölva, enduruppraðað herbergi, Em að byrja, byrjaður í ræktinni, hættur að borða nammi á virkum dögum og jafnvel að spá í að kaupa mér ljósakort til að vera ekki eins og algjör næpa í mesta skammdeginu þótt ég hafi mjög sjaldan farið í ljós yfir ævina... sé samt til


Þá fer að síga á seinni hlutann...

Jæja þá fer að síga á seinni hlutann á þessu jólafríi. Ég hef gert fátt annað en að liggja í leti, borða nammi, góðan mat, sofa, versla og hafa gaman. Þetta er búið að vera eitt af bestu jólafríum sem ég hef farið í en það verður líka gaman að byrja aftur í skólanum :)
Ég er reyndar tölvulaus þessa stundina þar sem apple umboðið er eitthvað að fikta í batterýinu á tölvunni minni. Átti góðan dag með mása í bænum í dag og við notuðum gjafakortin okkar, fengum okkur að borða og enduðum svo á bíó. Keypti mér ógó flottann vindjakka sem er samt ekki svona vindjakki til að nota bara í vindi heldur meira svona léttur jakki til að vera í og svo keypti ég mér skyrtu.
Er að spá í að kaupa mér einhverja íþróttaskó á morgun og kannski buxur... ef ég tími ;)

Jólagjafirnar

Ég fékk 10.000kr gjafabréf frá Kaupþing. Ég og Magnús og ætlum að spreða því 3. jan. Magnús segir að við ætlum að fara 3. jan því þá sé fæðingadagur mannsins sem fann upp bréfaklemmuna.
Íslenska landsliðbúninginn í handbolta Diesel gallabuxur
Joe Boxer náttbuxur

Hettypeysu frá Jack and Jones Íþróttatösku frá Nike
bókina Harðskafi eftir Arnald Indriðason
Sængurver,

lak

sokka

Rubiks cube

Heima með Sigur Rós

Rouge trader

Million Dollar Baby

The Hurricane

Árið á enda. Uppgjörið.


Jæja þá er árið 2007 bara á enda. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið viðburðaríkt ár og ábyggilega eitt af þeim betri og ábyggilega viðamesta ár frá upphafi

Árið byrjaði með látum og byrjaði strax á því að vera forstjóri í hinu margumtalaða alltíeinu fyrirtæki sem var stofnað í fsu. Þar framleiddum við boli, alltíeinu bakkana margumtöluðu og brölluðum margt skemmtilegt. Fór í sjónvarps og útvarpsviðtöl og allnokkur blaðaviðtöl i flestum blöðum landsins sem var gaman. Unnum einmitt verðlaun fyrir markaðs og kynningarstörf.
Tók svo fullt af einingum í skólanum og kláraði t.d. 2 spænskuáfanga á einn önn.
Svo varð ég stúdent. dimmiteraði í Andrésar Andar búningi og svo kvaddi ég loksins fsu með útskrifarhúfu á höfði og bros á vör eftir annasamar annir.. (sakna skólans samt smá)
Vann svo í herraversluninni Blaze í sumar og fór til Rómar.
Vann svo í hugmyndasamkeppni fyrir s3.is og átti hlut í því að móta síðuna og koma henni á koppinn.
Var svo með Bjarna Harðarsyni í kosningabaráttu hans sem endaði vel.
Ég sótti svo um og komst inn á Bifröst og flutti þangað eftir sumarið og flutti inn með Þorsteini félaga mínum í gulan gám. Námið á Bifröst átti eftir að verða meira krefjandi en ég hafði gert mér grein fyrir en jafnframt mun skemmtilegra. Ég var loksins fluttur út að einhverju leiti eftir 20 ára vist á hótel mamma og byrjaður að sjá hvað hlutirnir kosta og hvað það tekur að reka eigið heimili.
Mitt nýja heimili átti eftir að líta svona út





b.t.w. hægri gámurinn er minn gámur

Ég setti svo í fyrsta sinn í þvottavél skömmu fyrir lokapróf sem var stórt skref í mínu lífi, ef ekki það stærsta.
Ég stefni á því að setja í næstu vél fljótlega eftir áramót ef hugrekkið leyfir ;)

Ég hélt að ég þekkti marga áður en að ég fór á Bifröst en þar kynntist ég heilum helling af fólki og gerði fullt af skemmtilegum hlutum. Ég einbeitti mér samt alfarið að náminu í þetta skiptið og kúplaði mig út úr öllum öðrum verkefnum eftir að hafa verið viðriðinn ófá málefnin á árinu. Ég náði svo á endanum öllum prófunum með ágætis meðaleinkunn og er strax byrjaður að undirbúa mig undir næstu önn.

Lífið var þó ekki einungis sigrar þótt árið hafi verið mér einstaklega hagstætt. Ég fékk Vífilfell til að styrkja mig til að halda útskriftarveislu fyrir Ísland en hætti við á síðustu stundu sem ég held að hafi verið rétt ákvörðun þegar á botninn er hvolft enda einver takmörk fyrir því hvað einn maður getur haft mörg járn í eldinum á sama tíma.
Ég hef líka bætt aðeins á mig á árinu sem verður eflaust mín helsta áskorun á nýju ári og nú er ekkert sem heitir :)

Fyrir nokkrum árum gerði ég ekki neitt alla daga, mér gekk ekkert í skólanum, ég féll mikið, kom heim til mín og sat í skrifborðsstól og horfði út í loftið og hreyfði músina á tölvunni minni fram og til baka tímunum saman og gerði ekki neitt.. bókstaflega!

Núna hef ég farið á klárað stúdent,
Fengið tæplega 20 meðmæli frá kennurum,
Farið á Dale Carnegie,
Unnið æðstu orðu Dale Carnegie,
Orðið aðstoðarmaður á Dale Carnegie,
Náð öllum markmiðunum sem ég skrifaði niður,
Tekið 4 spænskuáfanga á einu ári,
Klárað stúentinn á réttum tíma þótt áfangastjórinn segði að ég gæti það ekki, Verið forstjóri í fyrirtæki,
Farið í blaða, sjónvarps og útvarpsviðtöl
Búið til stuttmyndir,
Verið í videonefnd fsu,
Átt forsíðumynd DV,
Verið í ritstjórn, skrifað og myndað fyrir sunnlenska
Myndað og skrifað fyrir sudurland.is
Fengið ljóð eftir mig prentað í miljónum eintaka aftan á mjólkurfernur,
Tekið sirka 22 einingar á önn,
Unnið fyrir 5 vinnuaðila í einu þegar mest var með skóla,
Verið í ræðuliði fsu og keppt fyir hönd þess,
Unnið verðlaun á Dale Carnegie aðstoðarmannanámskeiði,
Gefið samtals yfir 1000 boli,
Sett vöru á markað
Verið í kosningaherferð fyrir þingmann
Fengið mér kærustu
Unnið í hugmyndasamkeppni s3.is
og fullt fleira....

Hvað kom fyrir? Hvernig fór ég frá því að vera einmanna, leiður, latur og metnaðarlaus yfir í að vera aktívur með háleit markmið og framkvæmt flest það sem kemur upp í hugann?

Ég ákvað að lífið hjá mér á að vera ævintýri og það ætti að vera ótrúlega gaman hjá mér. Alltaf! Ég sá að það eina sem stendur í vegi fyrir því að ég nái markmiðum mínum og framkvæmi það sem mér dettur í hug er ég sjálfur og minn hugsunarháttur. Og ef það er bara minn hugsunarháttur sem ákveður hvað ég get gert þá var þetta bara ekki spurning. Ég ákvað bara að breyta um hugsunarhátt.

Og lífið hjá mér hefur verið algjört ævintýri. Ég hef á síðastliðnu ári gert nánast meira en ég hef gert alla mína ævi og það er búið að vera geggjað.

Ég get hreinlega ekki beðið eftir að byrja nýtt ár. Get ekki byrjað eftir því að byrja nýja önn og klára fyrsta árið mitt á Bifröst, get ekki byrjað eftir því taka af mér jólamatinn, get ekki beðið eftir því eyða notalegum stundum í pottinum á Bifröst, get ekki beðið eftir því að byrja að skipuleggja skiptinámið sem ég ætla í, get ekki beðið eftir því að lenda í geðveikum ævintýrum á nýju ári.

Ég segi bara takk fyrir frábært ár og ég get ekki beðið eftir því að byrja nýtt ár af krafti. Nýtt upphaf til að ná þeim markmiðum sem eru enn í vinnslu, nýtt tækifæri búa sér til fleiri markmið til að ná og ný frábær ævintýri til að fara í.

Sjit hvað þetta á eftir að verða geðveikt :D

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband